Erlent

Hermenn drepnir í Taílandi

Íbúar í þorpi í suðurhluta Taílands tóku tvo hermenn höndum og myrtu þá í dag vegna gruns um aðild þeirra að skotárás. Eftir því sem BBC greinir frá voru mennirnir gripnir eftir skotárás úr bíl í þorpinu og sökuðu sumir þorpsbúanna þá um að tilheyra dauðasveitum yfirvalda. Hermennirnir tveir voru stungnir og barðir til dauða þegar sá orðrómur breiddist út að öryggissveitir hygðust gera árás á húsið þar sem þeim var haldið. Yfirvöld neita því að mennirnir hafi tilheyrt dauðasveitum og segja þá hafa verið að elta uppreisnarmenn sem hafi staðið á bak við skotárásina úr bílnum. Róstusamt hefur verið í suðurhéruðum Taílands undanfarið eitt og hálft ár og hafa 900 manns fallið í átökum þar. Yfirvöld kenna aðskilnaðarsinnum úr röðum múslíma, sem eru í meirihluta á svæðinu, um ofbeldið en fólk á svæðinu hefur gagnrýnt hversu hart öryggissveitir stjórnvalda hafi gengið fram til að draga úr ofbeldinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×