Erlent

Ríta orðin fjórða stigs fellibylur

Fellibylurinn Rita er orðin fjórða stigs fellibylur og er þar með orðin öflugri en Katrín þegar hún skall á suðurströnd Bandaríkjanna. Óttast er að Rita kunni að valda gríðarlegi eyðileggingu í Texas og í Louisiana. Ríta var fyrir stundu flokkuð sem fjórða stigs fellibylur, en hún hefur styrkst gríðarlega á leið sinni yfir Mexíkóflóa. Í fyrstu var ekki talið að Ríta næði þeim styrkleika fyrr en á næstu sólarhringum þegar hún gæti farið yfir Texas eða Louisiana, en nú er ljóst að kraftur bylsins er meiri en menn héldu. Þar með er styrkleiki Rítu orðinn meiri en styrkur fellibylsins Katrínar þegar hann skall á suðurströnd Bandaríkjanna í síðasta mánuði og olli gríðarlegri eyðileggingu í Louisiana, Mississippi og Alabama í síðasta mánuði, en Katrín var þá þriðja stigs fellibylur. Vindhraði Ritu er nú um 210 kílómetrar á klukkustund. Fellibylurinn fór framhjá Flórída Keys eyjaklasanum syðst á Flórída í nótt en fór ekki það nálægt eyjunum að hann næði að valda usla. En þar sem bylurinn styrkist óðum og virðist stefna á Texas og Louisiana hefur öllum þeim sem snúið höfðu aftur til New Orleans verið skipað að fara aftur burt. Ray Nagin, borgarstjóri New Orleans, sagði í morgun að þegar væri byrjað að flytja fólk frá borginni. Hann sagði að engin áhætta yrði tekin í þetta skiptið. Öllum íbúum Galveston í Texas í Bandaríkjunum hefur verið skipað að yfirgefa heimili sín vegna Rítu sem stefnir óðfluga þangað. Í Texas er óttast að gríðarleg flóðbylgja verði þegar Ríta skellur á ströndum ríkisins. George Bush, forseta Bandaríkjanna, sem hefur verið gagnrýndur harðlega fyrir slæm viðbrögð við fellibylnum Katrínu, hefur verið gert viðvart vegna Rítu og segist hann biðja þess að fellibylurinn valdi ekki sömu eyðileggingu og Katrín.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×