Lífið

Bolton mættur til landsins

Bandaríski hjartaknúsarinn og konungur rómantísku popptónlistarinnar, Michael Bolton, er mættur til landsins. Ef að líkum lætur mun kappinn bræða fjölmörg hjörtu með angurværri röddu og ljúfsárum tregatónum á tónleikum annað kvöld í Laugardagshöllinni. Söngvarinn er nú á tónleikaferð um Evrópu en hann hefur gefið út 13 hljómplötur sem selst hafa í 52 milljónum eintaka. Áður en Bolton sneri sér að rómantískum ballöðum var hann í rokkhljómsveit sem hitaði meðal annars upp fyrir Ozzy Osbourne en samhliða rokkinu samdi hann róleg og rómantísk lög fyrir tónlistarmenn eins og Barböru Streisand. Þessi fyrrum hárprúði maður virðist ekki þó einungis búa yfir gullrödd heldur virðist hjarta hans líka úr gulli. Árið 1993 stofnaði hann Michael Bolton stofnunina í því markmiði að veita fátækum börnum og konum húsaskjól, menntun og aðstoð gegn líkamlegu og kynbundnu ofbeldi. Bolton gegnir líka stjórnarformennsku í bandarískum samtökum sem vinna gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum, hann situr í stjórn barnasjúkrahúss og er í fararbroddi samtaka gegn heimilisofbeldi. Fyrir störf sín á þessu sviði hefur Bolton hlotið ýmsar viðurkenningar í Bandaríkjunum. Spurður hvað varð til þess að söngvarinn mjúkraddaði sneri sér að baráttu gegn ofbeldi á konum og börnum segir hann að upphafið megi rekja til þess þegar hann var að halda tónleika eitt skiptið og fékk skilaboð um að fólk frá þessum samtökum vildi tala við hann.  Bolton segist ekki hafa haft neinar væntingar áður en hann kom til Íslands. Það sem hafi komist næst því að vera væntingar var sú staðreynd að vinir hans höfðu sagt honum að hann myndi skemmta sér vel hér á landi, vegna þess að landsmenn hefðu gaman af að skemmta sér.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.