Innlent

Þyrftu að vera á geðsjúkrahúsum

Áætlað er að 6 til 8 geðsjúkir einstaklingar, sem þyrftu að vera á geðhjúkrunarstofnunum, afpláni nú í fangelsum landsins, að sögn Önnu Kristínar Newton, sálfræðings hjá Fangelsismálastofnun. Um er að ræða einstaklinga sem eru mjög veikir og myndi líða betur og vegna betur annars staðar en innan fangelsisveggjanna. "Heilbrigðisteymi er starfandi í öllum fangelsunum, sem reynir að sinna þessum einstaklingum eftir bestu getu og vinnur mjög vel ," segir hún. "Þá er um að ræða sálfræðilega og læknisfræðilega aðstoð, svo og geðhjúkrunarfræðinga. Á Litla-Hrauni, sem er stærsta fangelsið, er heilbrigðisstarfsmaður til taks á hverjum virkum degi. Því er hægt að hafa eftirlit með þeim einstaklingum sem eru mjög illa staddir." Anna Kristín segir að dugi það ekki til sé leitað til geðdeildar. Ástandið þurfi að vera orðið mjög slæmt til að einstaklingur sé lagður þar inn. Þá sé stundum brugðið á það ráð að senda fanga milli fangelsa til að koma þeim nær þeirri aðstoð sem þeir þurfi á að halda. Þá beri að geta þess að heilbrigðisráðherra hefur veitt fjármunum í hálfa stöðu geðlæknis til að sinna fangelsismálum en hana hafi enn ekki tekist að manna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×