Innlent

Um 64% vilja flugvöllinn burt

Meirihluti Reykvíkinga vill að Reykjavíkurflugvöllur verði fluttur burt úr Vatnsmýrinni, samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust rúm 64 prósent vilja Reykjavíkurflugvöll fluttan burt, en tæp 36 prósent sögðust ekki vilja að flugvöllurinn yrði fluttur. 89,8 prósent svarenda tóku afstöðu til spurningarinnar. Níu prósent voru óákveðin og rúmt prósent neitaði að svara. Í Þjóðarpúlsi Gallup, skoðanakönnun sem framkvæmd var í maí, kom fram að 53 prósent íbúa á höfuðborgarsvæðinu vildu að flugvöllurinn yrði fluttur. Einungis 32 prósent íbúa á landsbyggðinni voru á sömu skoðun. Í könnun Gallup var þó ekki gerður greinarmunur á íbúum Reykjavíkur og öðrum íbúum höfuðborgarsvæðisins. Af þeim sem sögðust vilja sjá Reykjavíkurflugvöll fluttan úr Vatnsmýrinni sögðust tæp 44 prósent vilja sjá flugvöllinn fluttan út í Löngusker. Rúmt 41 prósent sagðist vilja sjá flugvöllinn fluttan til Keflavíkur. Munurinn á vinsældum þessara tveggja staðsetninga fyrir innanlandsflugvöll er því lítill. Tæp fimmtán prósent sögðust vilja sjá flugvöllinn fluttan eitthvað annað og var meðal annars nefnt að flytja hann til Hafnarfjarðar. Trausti Valsson skipulagsfræðingur setti fyrst fram hugmyndina um flugvöll á Lönguskerjum árið 1974. Um flutning flugbrautanna þangað hefur einnig verið rætt í skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur og sagði Óskar Bergsson í júlí 2001, þá verandi varaformaður nefndarinnar, að lausn á flugvallarmálinu væri að gera nýjan völl á Lönguskerjum og losa þannig allt land í Vatnsmýrinni til uppbyggingar. Á þeim tíma taldi hann pólitískan vilja fyrir hendi innan R-listans fyrir þeim valkosti. Könnunin var gerð dagana 27. og 28. ágúst. Hringt var í 800 Reykvíkinga, skipt jafnt milli kynja og valið af handahófi úr þjóðskrá. Spurt var: "Á að flytja Reykjavíkurflugvöll úr Vatnsmýrinni?" og tóku 89,8 prósent svarenda afstöðu til spurningarinnar. Þeir sem svöruðu spuringunni játandi, sem voru 461, voru svo spurðir; "Hvert viltu að flugvöllurinn verði fluttur?" og tóku 70,5 prósent þeirra afstöðu til spurningarinnar. Á að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni? Já 64,2% Nei 38,8% Hvert viltu að flugvöllurinn verði fluttur? Á Löngusker 43,7% Til Keflavíkur 41,4% Annað 14,9%



Fleiri fréttir

Sjá meira


×