Innlent

Þverpólitísk samstaða um flugvöll

Þverpólitísk samstaða virðist hafa myndast um að flutningur Reykjavíkurflugvallar komi til greina. Samgönguráðherra segist fús til að ræða allt. Nú snýst umræðan um raunhæfa kosti fyrir völlinn utan Vatnsmýrarinnar. Meirihlutinn og minnihlutinn í borgarstjórn hafa nánast fallist í faðma í spjallþáttum og fréttum undanfarna daga og virðist sem allt í einu séu allir sömu skoðunar hvað varðar framtíð Reykjavíkurflugvallar. Í síðustu viku samþykkti svo borgarráð samhljóða að kanna hvort hægt væri að flytja völlinn. Löngusker eru sá möguleiki sem oftast hefur verið nefndur undanfarna daga og sýnist þar sitt hverjum, en fleiri möguleikar hafa verið nefndir til sögunnar svo sem Álfsnes, Geldinganes, Engey, Löngusker, tveir kostir á landfyllingum við Álftanes, Hvassahraun og Mýrdalsheiði. Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, virðist vera jafnreiðubúinn að skoða flutning og borgaryfirvöld. Sturla segir að eftir samkomulag við borgarstjóra sé nú verið að vinna að endurskipulagningu alls svæðisins og að sjálfsögðu væri það mjög mikilvægt að heyra að frambjóðendur í borgarstjórnarkosningunum séu þeirrar skoðunar að á næsta kjörtímabili þurfi að taka ákvarðanir til frámtíðar hvað varðar þetta svæði. Hann sagði það vera í samræmi við sinn vilja. Hann sagði að endurskipulagning flugvallarsvæðisins væri staðreynd og einnig hafi menn viljað skoða Lönguskerin og hann sagðist ekkert hafa á móti því ef fyrir því væru raunhæfar forsendur. Hvað Álftanesið varðaði sagði hann það vera ákjósanlegan stað en benti á að bæjaryfirvöld hefðu ekki sóst sérstaklega eftir því að fá flugvöll. Um aðra staði sagði hann varla vera að ræða en sjálfsagt að fara yfir það ef forsendur eru til þess og ef menn vilja leggja fjármuni í endurbyggingu flugvallar á nýjum stað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×