Innlent

Engin úrræði fyrir geðsjúka fanga

"Engin úrræði eru fyrir hendi þegar í hlut eiga sakhæfir, geðsjúkir fangar. Við getum ekki lengur sinnt þeim sem eru veikir og úrskurðaðir sakhæfir í fangelsum landsins, því við höfum ekkert pláss," segir Drífa Eysteinsdóttir yfirhjúkrunarfræðingur á réttargeðdeildinni að Sogni. Hún segir stöðuna "mjög erfiða." Atburðir undanfarinna daga, þar sem í hlut eiga afbrotamenn með mikil geðræn vandamál, kalla óneitanlega á spurningar um þá umönnun sem þeim er ætlað í gæsluverðhaldi eða afplánun. Drífa segir að réttargeðdeildin sé nú fullskipuð af ósakhæfum, geðsjúkum föngum. Þar eru sjö pláss, en Drífa segir að iðulega hafi þurft að búa til áttunda plássið, jafnvel hið níunda í bráðabirgðaaðstöðu, þar sem þörfin sé svo brýn. "Fram að þessu höfum við tekið veika menn úr fangelsunum sem hafa verið úrskurðaðir sakhæfir. Þá höfum við lent í því að þurfa að senda þá aftur í fangelsið, því okkar fyrsta skylda er að taka hina ósakhæfu. Við höfum oft tekið mjög veikt fólk sem hefur verið í gæsluvarðhaldi hjá okkur og málið þá verið rannsakað hér. Þetta getum við ekki nú vegna plássleysis." Margrét Frímannsdóttir alþingismaður. segir stöðu geðsjúkra fanga "algjörlega óviðunandi." Hún minnir á tillögur og teikningar þess efnis að stækka geðdeildina á Sogni og þar með verði unnt að taka þar inn fanga sem dæmdir séu í gæsluvarðhald, svo og hina sem eigi við tímabundin geðræn vandamál að stríða eða séu geðsjúkir. Sú lokaða geðdeild sem byggð hafi verið upp á Kleppi leysi engan veginn þann vanda sem sé innan fangelsanna eins og þau eru í dag. Drífa tekur undir þá skoðun að stækka þurfi Sogn um að minnsta kosti helming til að hafa þann fjölda plássa sem þurfi fyrir ósakhæfa, samkvæmt fyrirliggjandi samanburðartölum frá öðrum Norðurlöndum. Margrét segir að fangelsismálastofnun hafi ítrekað bent stjórnvöldum á þann vanda sem sé í málefnum geðsjúkra fanga en því miður hafi undantekningarnar verið litlar enn sem komið sé.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×