Innlent

NASA með tilraunir í Eyjafirði

Fulltrúar Geimferðastofnunar Bandaríkjanna, NASA, eru staddir hér á landi í þeim tilgangi að prófa hátæknibúnað við neðansjávarsýnatöku. Aðstæður hérlendis eru upplagðar fyrir NASA, segir lektor við Háskólann á Akureyri. Tveir vísindamenn frá NASA eru nú gestir sérfræðinga auðlindadeildar Háskólans á Akureyri og Íslenskra Orkurannsókna. Þeir eru Alberto Behar og Jaret Matthews. Eru þeir að gera tilraunir með hátæknibúnað sem verið að sérhanna fyrir rannsóknir á djúpsjávarhverum, og þóttu grunnsjávarstrýturnar í Eyjafirði sérlega hentugar til prófana. Hreiðar Þór Valtýsson, lektor við Háskólann á Akureyri, segir markmiðið að taka sýni úr vökvanum til að ná í örverur sem þrífast í heita vatninu og eru algerlega óháðar sólarljósi, eina vistkerfið sem ekki er háð sólarljósi. Alberto hefur einnig komið að ýmsum öðrum rannsóknum NASA til dæmis á Suðurskautslandinu, en einnig tekur hann þátt í hönnun og smíði á þjarkabíla til rannsókna á mars. Hann mun flytja fyrirlestur um störf sín á hinum ýmsu svæðum sólkerfisins og verður fyrirlesturinn í rannsóknahúsinu að Borgum hjá Sólborg klukkan 16:30 á morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×