Erlent

Ástandið versnar stöðugt

Algert neyðarástand ríkir á hamfarasvæðunum í sunnanverðum Bandaríkjunum. Óttast er að hundruð manna hafi týnt lífi af völdum fellibylsins Katrínar. Vatnsborð hélt áfram að hækka í New Orleans í gær enda er 150 metra langt skarð í varnargarðinum sem liggur að Pontchartain-vatni. "Útlit er fyrir að fólk fái ekki að snúa aftur heim fyrr en eftir 3-4 mánuði," sagði Ray Nagin, borgarstjóri New Orleans í sjónvarpsviðtali í gær. Hann bætti því við að lík hefðu sést fljótandi í vatninu og veruleg hætta væri talin á að af þeim sökum gætu farsóttir breiðst út um hamfarasvæðin. Staðfest hefur verið að 110 manns hafi farist í Mississippi en yfirvöld grunar að mun fleiri hafi farist. Ekki er farið að skrá fjölda látinna í Louisiana þar sem aðstæður eru einfaldlega of erfiðar. Drykkjarvatn er á þrotum í New Orleans, rafmagnslaust gæti verið í borginni vikum saman og ræningjar láta greipar sópa. Þannig var byssudeild Wal-Mart keðjunnar í New Orleans tæmd í gær. 40.000 manns dvelja í neyðarskýlum Rauða krossins á hamfarasvæðunum. Flytja á 25.000 íbúa Louisiana til Houston í Texas og bandaríski sjóherinn hefur sent fjögur herskip á vettvang með vistir og lyf.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×