Lífið

Óborganleg skemmtun

Hagyrðingar landsins eru óðum að koma sér í réttar stellingar fyrir landsmótið á Hótel Sögu á laugardag. Sigurður Sigurðarson dýralæknir, kvæðamaður og hagyrðingur hefur sótt tólf af sextán landsmótum og hlakkar mjög til. Hann missti af tveimur fyrstu mótunum og var í útlöndum við rannsóknir þegar tvö síðustu voru haldin. "Ég hlakka mjög til enda er þetta óborganleg skemmtun," segir Sigurður. Vitaskuld fljúga vísurnar milli manna á landsmótinu og það var einmitt við slíkt tækifæri sem meðfylgjandi vísa varð til. Karl og kona stóðu saman og eins og gengur spurði frúin um almennt heilsufar. Karl svarði því til að læknarnir segðu að allt væri að bila, bæði haus og fætur. Hann væri hins vegar ekki viss um að þetta væri rétt, í það minnsta væri miðjan enn í góðu lagi. Varð henni þá umsvifalaust að orði: Dunar fjör og dans um nætur dátt með hopp og brun og svig. Þótt hæpið sé með haus og fætur er helst að miðjan standi sig. Svaraði hann þá um hæl: Sú var tíð hún sveik mig ekki sitt af hverju hefur reynt. En alltaf stóðst hún Amors hrekki, þótt örvum væri þangað beint.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.