Erlent

Málefnin ráða afstöðu kjósenda

Í skoðanakönnun sem Opinion hefur gert fyrir norska dagblaðið Aftenposten telja 57 prósent aðspurðra að málefni ráði mestu um hvaða flokk þeir kjósa í kosningunum til norska Stórþingsins eftir 12 daga. Liðlega fjórðungur telur að álit manna á stjórnmálaflokkum ráði mestu en aðeins 14 prósent telja að álit á frambjóðendum og leiðtogum flokkanna sé það sem úrslitum ráði. Sömu spurningar voru lagðar fyrir kjósendur fyrir kosningar í Noregi árið 1996 og 2001. Niðurstöður nú benda til þess að afstaða flokkanna til einstakra mála hafi fengið aukið vægi en álit kjósenda á flokkum og frambjóðendum skipti minna máli. Tæpur fjórðungur kjósenda taldi að álit eða tiltrú skipti mestu máli árið 1996. Árið 2001 var hlutfallið 17 prósent og á þessu ári er hlutfallið komið niður í 14 prósent. Þetta kemur á óvart því kastljós norskra fjölmiðla beinist fyrst og fremst að að frambjóðendum í kosningaslag, sérstaklega í sjónvarpinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×