Erlent

55 látnir af völdum Katrínar

Ekki færri en 55 hafa látist af völdum fellibylsins Katrínar sem skall á suðurströnd Bandaríkjanna í gær. Flestir þeirra sem létust bjuggu í sýslum innar í landinu en í New Orleans borg létust einungis þrír enda hafði gríðarlegur viðbúnaður verið þar. Enn hefur ekki tekist að komast að nokkrum íbúðarhverfum sökum vatnselgs og óttast er að einhverjir kunni að hafa látið lífið. Í gær var meira en tvö hundruð manns bjargað af húsþökum í borginni. Meira en milljón manns er án rafmagns á suðurströnd Bandaríkjanna og að sögn yfirvalda gætu liðið allt að tveir mánuðir þar til rafmagn kemst á aftur. Hlutar New Orleans eru enn á kafi og eyðileggingin er gríðarleg. Rafmagnslínur hafa eyðilagst, stór pálmatré liggja á víð og dreif og bílar fljóta eins og hráviði um alla borg. Fjölmargar byggingar eru gjörónýtar og götur sem ekki eru á floti eru þaktar glerbrotum og öðru rusli. Þó að það sé ljóst að það muni taka marga mánuði að koma borginni almennilega af stað á nýjan leik var búist við slíkum hamförum að ekki er laust við að ákveðins léttis gæti enda hefðu hamfarirnar orðið miklu verri ef Katrín hefði ekki sveigt á síðustu stundu. Í Missisippi, Alabama og Louisiana hafa líka orðið miklar skemmdir af völdum Katrínar þó að dregið hafi verulega úr krafti hennar þegar þangað var komið. Þar hefur verið lýst yfir neyðarástandi enda liggja samgöngur víða niðri og hættan af völdum snarpra vindhviða ekki enn liðin að fullu hjá.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×