Erlent

Schröder sigurviss

Gerhard Schröder Þýskalandskanslari er bjartsýnn á að flokkur hans verði enn við völd að loknum kosningunum 18. september. Þýska sjónvarpsstöðin ARD birti skoðanakönnun á föstudaginn en samkvæmt henni hefur Jafnaðarmannaflokkur Schröders bætt við sig fylgi og mælist nú með 31 prósent atkvæða. Kristilegu flokkarnir fengju hins vegar 42 prósent yrði gengið til kosninga nú. Schröder sagði í samtali við ZDF-stöðina að hann hann héldi aðaláætlun sinni til streitu, að gera Jafnaðarmannaflokkinn að stærsta flokki landsins, og hann hefði enga varaáætlun. Hann benti á að stór hluti kjósenda gerði ekki upp hug sinn fyrr en á lokasprettinum og því væri hann bjartsýnn. Græningjar, samstarfsflokkur jafnaðarmanna í ríkisstjórninni, fá átta prósenta fylgi í könnunum og því er ljóst að erfitt verk er fyrir höndum. Frjálslyndir demókratar, sá flokkur sem búist er við að muni mynda ríkisstjórn með kristilegu flokkunum, fá hins vegar aðeins sjö prósent og því stæði slík ríkisstjórn afar völtum fótum. Því eru margir farnir að gera því skóna að kristilegu flokkarnir myndi ríkisstjórn með jafnaðarmönnum og yrði Angela Merkel kanslari þeirrar stjórnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×