Erlent

Þónokkrir Íslendingar á svæðinu

Á þessu svæði, þar sem Katrín veldur usla, búa þónokkrir Íslendingar. Flestir sem búa í New Orleans eru flúnir en aðrir halda kyrru fyrir þó að Katrín sé á leiðinni til þeirra. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu amar ekkert að Íslendingum í þeim ríkjum þar sem Katrín hefur látið til sín taka, í það minnsta var ræðismönnum Íslands þar ekki kunnugt um neitt. Allmargir Íslendingar hafa þó þurft að yfirgefa heimili sín í nánd við New Orleans, eins og aðrir þar. Þeirra á meðal er Linda Garðarsdóttir. Hún segir aðspurð að fólk hafi verið nokkuð áhyggjufullt vegna fellibylsins. Margir fellibyljir hafi farið um á þessum slóðum undanfarin ár og New Orleans ávallt sloppið við það versta en nú hafi fólk vitað að svo yrði ekki í þetta skiptið. Aðspurð hvort hún geri sér grein fyrir hvernig farið geti fyrir heimili hennar segir Linda að það fari eftir því hvort varnargarðar hafi haldið eða ekki. Það komi ekki í ljós fyrr en í kvöld. Hún búi í tveggja hæða húsi og að Mississippi-áin sé í sömu hæð og svefnherbergi hennar á annarri hæð. Ef varnargarðarnir hafi haldið sé allt í lagi en ef ekki hverfi allt hennar dót. Linda var í dag í Monroe í Louisiana, í fimm tíma fjarlægð frá New Orleans. Þar leitaði hún skjóls hjá vinkonu sinni. Fréttastofan reyndi að ná sambandi við fleiri Íslendinga en vonlaust er að ná sambandi við þau svæði þar sem veðrið er hvað verst; þar er raunar víðast hvar hvorki símsamband né rafmagn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×