Erlent

Allir eru taldir af

Allt að 160 manns eru taldir hafa látist þegar farþegaþota West Caribbean Airways á leið frá Panama til Martiník hrapaði í skóglendi í vestanverðu Venesúela. Vélarbilun virðist vera orsök slyssins. Flugvélin, sem var af tegundinni McDonnell Douglas MD-82, var á leið frá Panama til frönsku eyjunnar Martiník í Karabíska hafinu. Um borð voru 153 martinískir ferðamenn á leið heim úr sumarleyfi frá Panama, auk átta manna áhafnar. Um klukkan þrjú í fyrrnótt að staðartíma óskuðu flugmenn vélarinnar eftir því við flugumferðarstjórn í Karakas í Venesúela að fá að lækka flugið úr 31.000 feta hæð niður í 14.000 fet þar sem hvorugur hreyfill vélarinnar starfaði eðlilega. Tíu mínútum síðar missti flugturninn allt samband við vélina en þá var hún yfir Machiques í Zulia-héraði sem er skammt frá kólumbísku landamærunum. Um svipað leyti heyrðu margir íbúar héraðsins sprengingu. Björgunarsveitir voru strax sendar á vettvang en svæðið er skógi vaxið og því erfitt yfirferðar. Auk þess er mikil úrkoma á svæðinu þannig að aðstæður eru allar hinar verstu. Fréttamaður venesúelsku sjónvarpsstöðvarinnar Globovision sagði í samtali við CNN-stöðina að talsverðan reyk legði upp úr skóginum og að brak úr vélinni virtist hafa dreifst yfir stórt svæði. Ekki eru taldar neinar líkur á að nokkur hafi komist lífs af úr slysinu. Jacques Chirac, forseti Frakklands, vottaði vinum og ættingjum þeirra sem fórust sína dýpstu samúð. Hann sendi Francois Baroin, ráðherra franskra yfirráðasvæða í öðrum ríkjum, strax til Martiník. Franskir flugslysasérfræðingar eru jafnframt á leið á slysstað til að grafast fyrir um orsakir slyssins. West Caribbean Airways er lágfargjaldaflugfélag sem var stofnað árið 2000 og flýgur til nokkurra staða á svæðinu. Í mars fórst lítil flugvél flugfélagsins sem var á leið frá kólumbísku eynni Providencia og létust þá átta manns.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×