Innlent

Allar framkvæmdir út úr friðlandi

Framkvæmd Norðlingaölduveitu verður öll utan friðlandsins Þjórsárverum að því er Samvinnunefnd miðhálendis samþykkti á fundi sínum á föstudag. Set- og veitulón norðaustan friðlandsins verða ekki heimiluð og er þannig vikið frá tveggja ára gömlum úrskurði Jóns Kristjánssonar, setts umhverfisráðherra, um Norðlingaölduveitu. Minnkun Norðlingaöldulóns úr 62 ferkílómetrum í fimm var jafnframt samþykkt af nefndinni. "Til að koma til móts við orkuvinnslu í landinu heimiluðum við opnun nýrrar jarðhitavirkjunar við Hágöngulón," segir Óskar Bergsson, formaður nefndarinnar. "Rannsóknarboranir þar gefa fyrirheit um orku sem nemur allt að hálfri Kárahnjúkavirkjun." "Það þarf að skoða hvort nefndin fer út fyrir valdsvið sitt þegar hún tekur afstöðu sem er önnur en afstaða umhverfisráðherra á sínum tíma," segir Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar. "Afstaðan er tekin út frá umhverfissjónarmiðum og þar er ráðherra æðsta stjórnvaldið." Friðrik segir að sest verði yfir niðurstöðu samvinnunefndar á næstu dögum þar sem staða verkefnisins verði skoðuð með tilliti til arðsemi virkjunarinnar og lagalegrar stöðu Landsvirkjunar. Hann segir engin áform uppi um að hætta við framkvæmdirnar þrátt fyrir að ljóst sé að arðsemi þeirra minnki í kjölfar niðurstöðu nefndarinnar. "Við þurfum að skoða hver staða okkar er og til hvaða ráða hægt er að grípa." Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands og Aðalsteinn Guðmundsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps, segjast fagna niðurstöðunni. Báðir telja að hætta verði við framkvæmdirnar í kjölfar niðurstöðu samvinnunefndarinnar. Breytingar Samvinnunefndar á svæðisskipulagi svæðisins verða í framhaldinu sendar Skipulagsstofnun og síðan umhverfisráðherra til staðfestingar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×