Innlent

Erilsamt hjá björgunarsveitum

Umhleypingasamt var víða á suðvesturhorni landsins í gær og fengu lögregla og björgunarsveitir ærin starfa við að bjarga lausum hlutum í verstu hviðunum. Mikill vindstrengur var fyrir Hafnarfjall í Borgarfirði með þeim afleiðingum að þrír bílar með hjólhýsi og einn með tjaldvagn í eftirdragi fuku útaf. Eitt hjólhýsið gjöreyðilagðist. Fór vindhraði yfir 30 metra á sekúndu þegar mest lét á nokkrum stöðum en þrátt fyrir smávægilegt tjón víða bárust engar tilkynningar um slys á fólki. Björgunarsveitarmenn voru kallaðir út á svæðum allt frá Vestmannaeyjum í suðri til Borgarness í vestri. Aðstoðu þeir við að festa lausa muni á byggingasvæðum víða auk þess sem gæta þurfti að bátum í höfnum landsins. Veðurstofa Íslands segir lægðina sem þessu olli á leið yfir landið en dregið hefur úr vindstyrk hennar. Er það ekki óvanalegt að slíkar lægðir fari yfir landið í ágúst og september en ekkert þessu líkt er þó framundan samkvæmt spám. Suðlægar áttir munu ríkja næstu daga með fremur stilltu veðri og vætu annars lagið.
Fljúgandi trampólín Trampólín sem hafa án efa verið eitt vinsælasta leikfangið í görðum fólks þetta árið ollu vandræðum enda létt og fuku auðveldlega um víðan völl. Lögreglumenn í Kópavogi höfðu nóg verkefni við að koma í veg fyrir að fljúgandi trampólín yllu ekki tjóni eða meiðslum.Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×