Lífið

Sex barna móðir vann lottópottinn

Helsta áhyggjuefni hinnar 45 ára gömlu Dolores McNamara í síðustu viku var hvernig hún ætti að hafa ráð á skólaeinkennisbúningum fyrir börnin sín í haust. Á föstudaginn keypti hún miða í Evrópulottóinu fyrir 200 krónur íslenskar og nokkrum klukkustundum síðar var hún orðin níu milljörðum króna ríkari þegar hún vann stærsta lottóvinning í sögu Evrópu. Dolores var stödd á hverfiskránni sinni í  á Írlandi þegar tölurnar voru dregnar út í sjónvarpinu. Vinur hennar, leigubílstjórinn Jackie Greer, segir að Dolores hafi setið sem steinrunnin í tíu mínútur eftir dráttinn, en síðan hafi tár farið að streyma niður kinnar hennar. Hann bætti við að vinningurinn hefði ekki getað fallið indælli manneskju í skaut. Mikil fagnaðarlæti brutust út á kránni eftir að ljóst var að Dolores hafði unnið og kampavín var borið fram fyrir gesti í kassavís. Þegar leið á nóttina var bankastjórinn í bænum ræstur út og Dolores kom miðanum í örugga geymslu í bankanum. Bankastjórinn ók Dolores síðan aftur á krána þar sem vinir hennar samglöddust með henni fram á rauðan morgun. Dolores er sex barna móðir og einn sona hennar, Dean, sem hélt upp á fimmtán ára afmæli sitt sama dag, segist helst hafa óttast um heilsu föður síns þegar honum bærust fréttirnar en hann hefur nýlega undirgengist þrefalda hjartaþræðingu. Dean segist eiga von á veglegri afmælisgjöf en alla jafna, en hann segist þó enn stefna að því að verða múrari eins og pabbi sinn. Með því að vinna andvirði níu milljarða króna rauk Dolores upp í 650. sæti yfir ríkasta fólk Bretlands. Hún varð til að mynda í einu vetfangi ríkari en David Beckham og Victoria kona hans sem eiga „aðeins“ átta milljarða króna. Og þess má til gamans geta að ef Dolores velur að ávaxta milljarðana sína á almennum bankareikningi þá fengi hún 33 milljónir króna í vexti á mánuði.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.