Lífið

Um 9000 manns í Eyjum

Hátíðarhöld þessa verslunarmannahelgi virðast að mestu leyti fara vel fram um allt land. Nóttin var með rólegasta móti á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Þó voru tveir menn teknir með lítilræði af fíkniefnum og gistu þeir fangageymslur lögreglunnar. Öðrum hefur nú verið sleppt en ástæða þótti til að rannsaka mál hins aðilans betur og er hann því enn í haldi lögreglu. Að sögn mótshaldara hefur fólksstraumurinn til Eyja haldið áfram í dag, bæði með flugi og Herjólfi. Í Herjólfsdal eru nú um níu þúsund manns og hið fínasta veður fyrir utan smá súld.  Fjögur minniháttar fíkniefnamál komu upp á Akureyri í nótt og tveir voru fluttir á slysadeild eftir slagsmál. Að öðru leyti var nóttin róleg að sögn lögreglunnar í bænum og hefur það sama verið uppi á teningnum í dag. Um sex þúsund manns eru á unglingalandsmóti UMFÍ í Vík í Mýrdal og þar var allt með kyrrum kjörum í nótt. Á Kirkjubæjarklaustri eru um þrjú þúsund manns á óskipulagðri útihátíð og þurfti lögreglan á Vík að hafa töluverð afskipti af fólki þar vegna ölvunarláta en allt hefur verið með ró og spekt í dag. Á bindindismóti í Galtalæk eru þrjú þúsund og fimm hundruð manns á væðinu og að sögn Sævars Finnbogasonar, framkvæmdastjóra mótsins, var nóttin róleg og menn almennt ánægðir með stemmninguna. Hann segist búast við að fólki fjölgi enn frekar í kvöld, enda sól og 18 stiga hiti á svæðinu. Um 500 manns eru á Álfaborgarséns á Borgarfirði Eystri og þar fóru hátíðarhöld vel fram að sögn lögreglunnar á Egilsstöðum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.