Innlent

Gestkomandi barðist við eldinn

Eldur kom upp í barnaherbergi í íbúðarhúsi á Selfossi í gær og olli töluverðum reykskemmdum, auk þess sem innanstokksmunir í barnaherbergi brunnu til kaldra kola. Íbúar voru í garðinum ásamt nágrannafólki þegar húsbóndinn sá hvar reyk mikinn lagði út um herbergisgluggan. Gestkomandi þar var fljótur til og fékk lánað slökkvitæki hjá kranamanni sem var þar að störfum skammt hjá og réðst þannig til atlögu við eldinn. Einnig nýtti hann vatn úr þvottahúsi til slökkvistarfsins og var hann við það að ráða niðurlögum eldsins þegar Brunavarnir Árnessýslu komu að og luku verkinu. Að sögn Kristjáns Einarssonar slökkviliðsstjóra kviknaði í út frá sjónvarpstæki sem var í barnaherberginu tengt í Playstation-leikjatölvu. Nágranninn snarráði kenndi eymsla í brjósti að verki loknu og var hann því sendur til læknisskoðunar en var mættur aftur galvaskur til vinnu í gær að sögn slökkviliðsstjóra sem grennslaðist fyrir um heilsu hans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×