Erlent

Ófrísk en heiladauð

Susan Torres, 26 ára Bandaríkjamaður, féll í dá í maí síðastliðinn eftir að óuppgötvað heilaæxli olli henni heilablóðfalli þar sem hún sat við kvöldverðarborðið heima hjá sér. Susan, var þá komin nokkrar vikur á leið með ófætt barn hennar og Jason Torres, eiginmanns hennar. Jason bað í kjölfarið læknana á spítalanum í Virginíu að halda Susan á lífi á meðan fóstrið innan í henni fengi að vaxa. Nú er fóstrið komið 24 vikur á leið og læknar telja líklegt að það gæti fæðst heilbrigt. Hins vegar vilja læknarnir líklegast bíða með fæðinguna þar til fóstrið hefur fengið að þroskast í heilar 32 vikur. Eðlileg meðganga er 40 vikur. Jason og fjölskylda hans hefur nú komið upp vefsíðu þar sem safnað er fyrir lækniskostnaðinum en þau voru án sjúkratryggingar. Jason hætti einnig í vinnunni eftir að Susan fékk heilablóðfallið og hefur sofið hverja nótt í hægindastól við rúmstokk konu sinnar. Nær óhugsandi er að Susan vakni nokkurn tíma úr dáinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×