Innlent

Frelsi eða lok velferðarkerfisins

Frá því framkvæmdir hófust við Kárahnjúka hafa málefni erlendra starfsmanna hér á landi mikið verið til umræðu enda ýmiss átök gefið tilefni til. Mál af þessu tagi einskorðast þó ekki við Kárahnjúka því fyrir skemmstu kærði Verkalýðsfélag Akraness atvinnurekanda í bænum sem var með fimm pólska verkamenn í vinnu. Reiknaðist verkalýðsfélaginu svo til að atvinnurekandinn greiddi pólskri starfsmannaleigu 140 þúsund krónur fyrir hvern verkamann á mánuði en sjálfir segjast þeir fá 77 þúsund krónur hver í mánaðarlaun. Þessar deilur hafa marga fleti og getur framvinda hennar haft mjög víðtæk áhrif á íslenskt samfélag. Frelsið er ekki aðeins okkar Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Sputnikbáta, sem kærðir hafa verið fyrir að hafa pólska verkamenn í vinnu hjá sér á þjónustusamningum, segir að Verkalýðshreyfingin verði að skilja það að pólskum og lettneskum starfsmannaleigum sé frjálst að selja sína þjónustu hér á landi þar sem EES-samningurinn tryggi frjálst flæði vöru og þjónustu. Samkvæmt þessum skilningi eru íslensk fyrirtæki sem nýta sér störf erlendra verkamanna á þjónustusamningi ekki vinnuveitendur þeirra heldur þjónustuþegar. Íslenska fyrirtækið borgar svo starfsmannaleigunni fyrir þjónustuna en hún er vinnuveitandi verkamannanna og því hvílir ábyrgðin á hennar herðum um að ákvæðum vinnulöggjafar sé fylgt. Af því leiðir að verkamennirnir greiða skatt í því landi sem starfsmannaleigan tilheyrir enda teljast þeir stafsmenn hennar. Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir hinsvegar að skattur verði að vera greiddur hér á landi fyrir þá vinnu sem hér er unninn. Minnir hann á að Impregilo hafi áður haft verkamenn sem voru fengnir frá Portúgalskri leigu og talið í fyrstu að það fríaði þá frá því að greiða skatta hér á landi en annað hafi komið í ljós. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur starfsmannaleigan sem Impregilo á í viðskiptum við opnað útíbú hér á landi.  Látið reyna á lögmæti þjónustusamnings Tveir dómar voru felldir í maí síðastliðnum í Héraðsdómi Austurlands þar sem reynt var á lögmæti þjónustusamninganna. Þar voru bæði GT verktakar og lettneskir verkamenn sýknaðir en þeir störfuðu fyrir starfsmannaleiguna Vislande SIA í Lettlandi en GT- Verktakar nýttu sér þjónustu þeirra. Íslenskir starfsmenn sem sagt hafði verið upp hjá GT Verktökum höfðu samband við Vinnumálastofnun vegna lettana sem ráðnir voru til starfa hjá fyrirtækinu en höfðu hvorki atvinnu- né dvalarleyfi. Magnús Nordal lögfræðingur ASÍ segir þennan dóm ekki hafa fordæmisgeefandi gildi því um sakarmál sé að ræða og í slíkum dómum gildi allt önnur sjónarmið um sakarmat og sönnun en í málum sem varða Evrópurétt. Hann segir að sá dómstóll sem úrslitum ráði í málum sem varða túlkun á Evrópureglum er EFTA dómstóllinn og hann hafi ekki verið spurður álits. Grefur undan velferðarkerfinu Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness segist hafa verulegar áhyggjur af þróun þessara mála því sjálfa íslenska velferðarkerfinu sé stefnt í voða. "Ef þetta er löglegt, sem ég trúi þó ekki að það sé, verður enginn til að greiða til hins opinbera hér á landi því allur skattpeningur verður greiddur einhversstaðar annarsstaðar og hvernig á þá að reka skóla, sjúkrahús og annað sem við þurfum á að halda í þessu þjóðfélagi," segir hann. Ennfremur segir hann þessa þróun stefna aldarlangri vinnu og baráttu Verkalýðsfélaganna í voða. Hann bætir við, "að hugsa sér að allt þetta karp sem menn hafa staðið í til að tryggja verkamönnum hér á landi mannsæmandi líf verði nú fyrir bí sísvona vegna þessara svokölluðu þjónustusamninga." Hugsanleg millilending Atvinnurekendur sem Fréttablaðið hafði samband við gangrýndu Vinnumálastofnun fyrir að vera of lengi og stíf við að veita erlendum starfsmönnum atvinnuleyfi. Þeir segja að þjóðfélagið hafi brýna þörf fyrir erlent vinnuafl og ef ekki verði hægt að útvega það með hefðbundnum hætti neyðist atvinnurekendur til að gera það eftir örðum leiðum. Þeir hafa einnig bent á að þessir þjónustusamningar séu pólskum og lettneskum verkamönnum afar hagkvæmir. En þessi þróun hlítur þó að leiða til einhverjar millilendingar þar sem ákvæði EES samningsins um frjálst flæði vöru og þjónustu verður virt en íslenskum yfirvöldum um leið gert kleypt að tryggja að kjarasamningar séu virtir. Spurningin um hvar beri að greiða skattana bíður þó enn frekari átaka. Hugsanlegt svar starfsmannaleiga við því ef þau eru krafinn um skatt í því landi þar sem verkamenn á þeirra vegum vinna er að opna útibú í því sama landi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×