Erlent

88 látnir í sprengjuárás

Að minnsta kosti 88 létust og á annað hundrað slösuðust í sprengjuárás á ferðamannastaðnum Sharm el-Sheik í Egyptalandi aðfararnótt laugardags. Óttast er að tala látinna muni hækka. Árásin er hin mannskæðasta í Egyptalandi til þessa. Sjö Íslendingar voru á staðnum en engan þeirra sakaði. Árásirnar virtust vel útfærðar og skipulagðar. Tvær bílsprengjur með þriggja kílómetra millibili sprungu samtímis klukkan korter yfir eitt aðfararnótt laugardags. Önnur sprakk við kaffihús á svæði sem kallast Gamli markaðurinn, þar sem mikið er um Egypta. Hin sprakk í anddyri lúxushótelsins Ghazala Gardens sem er í Naama flóanum, þar sem flest hótelin eru staðsett. Talið er að um sjálfsmorðsárásir hafi verið að ræða. Þriðja sprengjan, sem talið er að falin hafi verið í tösku, sprakk um svipað leiti og hinar á gönguleið við ströndina þar sem ferðamenn spóka sig gjarnan á þessum tíma sólarhringsins. Nokkrum klukkustundum eftir sprengingarnar lýstu tvennir öfgahópar tengdir al-Kaída yfir ábyrgð á árásinni en það hefur ekki fengist staðfest. Annar hópurinn, sem nefnir sig Abdullah Azzam hersveitirnar, al-Kaída í Sýrlandi og Egyptalandi, var einn af tveimur öfgahópum sem lýstu yfir ábyrgð á sprengingunum á ferðamannastöðunum Taba og Ras Shitan í Egyptalandi í október þar sem 34 létust. Hópurinn lýsti einnig yfir ábyrgð á sprengingum í Kaíró í apríl. Flestir hinna látnu voru Egyptar en einnig létust að minnsta kosti átta erlendir ferðamenn frá um sjö löndum og tugir eru slasaðir. Lögreglan færði tuttugu til yfirheyrslu, en flestir voru staddir nærri árásarstöðunum þegar sprengingarnar urðu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×