Lífið

HM í sveskjusteinaspýtingum

Franskir dagar hefjast á Fáskrúðsfirði innan fárra daga. Þeir verða haldnir dagana 21. – 24. júlí og er þetta í tíunda sinn sem hátíðin er haldin. Markmið Franskra daga er að minnast fiskimanna frá Frakklandi og sjósóknar þeirra hér við land en helsta bækistöð þeirra var á Fáskrúðsfirði. Fjölmargir brottfluttir Fáskrúðsfirðingar leita á heimaslóðir á Frönskum dögum og austfirskum gestum hefur fjölgað ár frá ári. Franskir gestir frá vinabænum Gravelines og frá franska sendiráðinu á Íslandi sækja hátíðina ár hvert. Þeir eru meðal annars viðstaddir minningarathöfn í franska grafreitnum utan við kauptúnið. Þar er lagður blómsveigur frá sendiráðinu að minnisvarða um franska og belgíska sjómenn sem létust hér við land. Dagskrá Franskra daga 2005 er mjög fjölbreytt og eru þeir fyrst og fremst hugsaðir sem fjölskylduhátíð. Boðið er upp á metnaðarfulla menningardagskrá sem inniheldur m.a. listsýningar í Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar en þar munu bæði íslenskir og franskir listamenn sýna verk sín. Raggi Bjarna, Berþór Pálsson og Þorgeir Ástvaldsson halda tónleika í Fáskrúðsfjarðarkirkju þar sem þeir flytja bæði íslensk og erlend lög. Í miðbænum er tjaldmarkaður, leiktæki fyrir börnin og fjölbreytt skemmtiatriði á útisviðinu. Á föstudagskvöldinu er varðeldur ásamt brekkusöng og flugeldasýningu. Aðrir fastir liðir eru svo m.a. dorgveiðikeppni, heimsmeistaramót í sveskjusteinaspýtingum og Íslandsmeistaramót í Pétanque. Þá má geta þess að hópur hjólreiðamanna frá Fáskrúðsfirði er nú að hjóla frá Reykjavík í tilefni þess að Franskir dagar eru nú haldnir í tíu skiptið. Hægt er að skoða dagskrána og lesa um helstu viðburði á síðunni www.austurbyggd.is/dagskrain2005





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.