Lífið

Enginn viðbúnaður vegna komu Snoop

Listamaðurinn umdeildi Snoop Dogg kemur til landsins í dag með fríðu föruneyti og heldur tónleika í Egilshöll í kvöld. Enginn sérstakur viðbúnaður verður hjá tollgæslunni á Reykjavíkuflugvelli þegar hann kemur, þrátt fyrir orðspor kappans um hassneyslu.   Tónleikarnir á Íslandi eru lokatónleikar í heimstúr listamannsins. Hann kemur til landsins í dag með um 30 manna fylgdarliði í einkaþotu frá Þýskalandi þar sem hann hélt tónleika í gærkvöldi. Hann heldur svo til heimaslóðanna í Bandaríkjunum í fyrramálið. Heimstúrinn endar því í Egilshöll í kvöld með miklum tilþrifum. Tónleikarnir byrja klukkan átta og ætlar meðal annars hljómsveitin Hæsta hendin að hita upp fyrir rapparann. Tollstjórinn í Reykjavík ætlar ekki að vera með sérstakan viðbúnað á Reykjavíkurflugvelli þegar Snoop kemur til landsins að sögn Fréttablaðsins í dag. Snoop hefur verið þekktur fyrir mikla hassneyslu, þrátt fyrir að segjast vera hættur henni, en hefðbundið eftirlit verður á vellinum sem felur í sér að leita stöku sinni í farangri komufarþega og í sumum tilfellum er fíkniefnahundur á staðnum. Egilshöll getur tekið við 7000 manns á tónleikana og stuttu fyrir hádegi voru nokkur hundruð miðar eftir óseldir en Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Event, segist búast við að þeir seljist hratt fyrir kvöldið. Listamaðurinn gerði þónokkrar kröfur til Event-manna eins og margir aðrir listamenn en hann hefur meðal annars óskað eftir einum pakka af Fishermans Friend, 20 flöskum af vatni, tveimur tylftum af ýmsum gosdrykkjum, fimm pökkum af vindlum með ferskjubragði og nóg af sælgæti. Ísleifur segir fullkomnlega eðlilegt að hann geri þessar kröfur, enda hafi hann ferðast um heiminn í rúman mánuð og vilji geta gengið að sömu hlutunum hvar sem er í heiminum. Snoop hefur sýnt áhuga á að kíkja á skemmtanalífið eftir tónleikana í kvöld og því er aldrei að vita nema sjá megi kappann með flétturnar danglandi, rölta niður Laugaveginn í nótt.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.