Lífið

Syntu yfir Hvalfjörð með kyndil

Sannkölluð heljarmenni komu rauð og misspræk upp úr sjónum við Eyrarnar í Hvalfirði í dag eftir að hafa synt yfir í ólgusjó. Sundið var hluti af Vináttuhlaupinu svokallaða sem á að minna fólk á vináttu og samkennd. Mann hryllir nánast við tilhugsuninni að stinga stóru tá ofan í ískaldan sjóinn í Hvalfirðinum en fimm heljarmenni úr Sundfélagi Hafnafjarðar og Garpi skiptu með sér þriggja kílómetra sundleið í morgun frá Katanesi til Eyranna í Hvalfirðinum. Ferðin tók rúman einn og hálfan tíma í um 10°C heitum ólgusjó sem lét til sín taka en sundið var hluti af „Vináttuhlaupinu“ svokallaða, eða World Harmony Run, sem fer fram í yfir 70 löndum á níu mánaða tímabili. Viktoría Áskelsdóttir, einnig þekkt sem stálkonan sem aldrei skelfur, kvartaði ekki einu sinni út af kulda þegar hún gekk á land. Hún sagði þetta vera mjög gaman en hún hefur einnig tekið þátt í hlaupinu sjálfu. Hún vildi ekki viðurkenn að sundið hafi verið erfitt - meira svona „fjörugt“. Sjórinn var ekki lengi að slökkva í kyndlinum á leiðinni en þegar sundkapparnir komu í land var fírað upp í honum í snarthasti og hlaupararnir tóku við. Leið þeirra lá í bæinn, um 40 kílómetra leið inn í Hljómskálagarð þar sem hlaupið endaði um fimm leytið en síðustu tvær vikur hafa þeir hlaupið víðs vegar um landið vegna Vináttuhlaupsins. Björgunarsveit Akraness var sundköppunum innan handar og þrátt fyrir að sjórinn hafi náð að slökkva í kyndlinum hafði Andrés Ramon, einn hlauparanna, tröllatrú á að vindurinn yrði ekki eins skæður. Svo væri alltaf bætt við olíu þannig að eldurinn héldist logandi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.