Innlent

Hitaveita Ólafsfjarðar seld

Þrjú veitufyrirtæki hafa sýnt áhuga á að kaupa Hitaveitu Ólafsfjarðar. Bæjaryfirvöld hafa ekki ákveðið hvort veitan verði seld en Stefanía Traustadóttir bæjarstjóri segir ákvörðun þess efnis væntanlega liggja fyrir í næstu viku. "Sveitarfélagið er mjög skuldsett og ef hitaveitan verður seld þá verður það af illri nauðsyn. Við höfum verið í viðræðum við Norðurorku og Rafmagnsveitur ríkisins, auk þess sem Hitaveita Suðurnesja óskaði eftir gögnum um veituna. Verðrammi liggur fyrir en að svo stöddu gefum við hann ekki upp," segir Stefanía. Franz Árnason, forstjóri Norðurorku, segir veitufyrirtæki ekki slást um Hitaveitu Ólafsfjarðar. "Almennt séð eru veitufyrirtæki tilbúin að kaupa veitur sem akkur er í að reka en seljendur þurfa að hafa í huga að því hærra verð sem kaupandi greiðir fyrir fyrirtæki, því meira þurfa viðskiptavinirnir, undantekningarlítið, að borga fyrir þjónustu þess í framtíðinni," segir Franz.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×