Innlent

Marktæk aukning á dánartíðni

Dánartíðni á landinu fór upp fyrir eðlilegt viðmiðunarbil í febrúar á sama tíma og hinn árlegi inflúensufaraldur var í hámarki. Þetta kemur fram í Farsóttafréttum, gefnum út af Landlæknisembættinu. Ef miðað er við meðaltal áranna 2000-2004 látast yfirleitt rétt um 35 Íslendingar í viku hverri, þó sínu fleiri yfir vetrarmánuðina. Haldið er utan um þetta meðaltal til að geta greint ef umtalsverð frávik verða frá eðlilegri dánartíðni. Eðlilegt er að sveifla sé í dánartíðninni og þá er miðað við 95 prósenta viðmiðunarbil. Samkvæmt því er það innan eðlilegra marka ef á milli um 25 og 54 látast á einni viku í febrúar. Tvær vikur í febrúarmánuði síðastliðnum fóru þó upp fyrir þetta viðmiðunarbil þegar yfir 110 manns létust samtals. Þó það fari vissulega ekki mikið yfir það sem talið er eðlilegt frávik þá eru það umtalsvert fleiri en meðaltal síðustu fimm ára. Á sama tíma og dánartíðnin fór upp fyrir viðmiðunarbilið var inflúensufaraldurinn í hámarki og í Farsóttafréttum segir að trúlega hafi hún átt sinn þátt í umframdauðanum. Þó hefur enn ekki verið rannsakað í þaula hvort svo sé en það verður gert í kjölfar marktækrar aukningar á dánartíðni. Guðrún Sigmundsdóttir yfirlæknir á sóttvarnarsviði segir aukninguna vissulega marktæka og að líklega sé inflúensunni um að kenna. Aðspurð hvort inflúensubóluefni geti hafa verið gallað og því valdið þessari miklu aukningu segir Guðrún að svo sé ekki, enda hefði það þá verið komið í ljós. Hins vegar segir hún að fólk taki misvel við bóluefninu og veiti það um 70 prósentum þeirra sem það fá fullkomna vörn, aðrir geti vissulega veikst þó bóluefnið eigi að draga úr flensueinkennum. Líklega hafi því ástæðan verið eðlilegar sveflur í útbreiðslu inflúensunnar og alvarleika enda hafi faraldurinn í vetur skorið sig úr árunum þar á undan þar sem vel tókst að halda henni í skefjum. Yfirleitt er það gamalt og veikburða fólk sem verst verður úti í inflúensunni og því vekur dauði þeirra minni athygli en ella.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×