Lífið

Hringferð Eggerts að ljúka

Hringferð Eggerts Skúlasonar, fyrrverandi fréttamanns á Stöð 2, lýkur í kvöld þegar hann hjólar inn í beina útsendingu Íslands í dag.  Eggert lagði af stað þann 27. júní og hefur nú hjólað um 1400 kílómetra. Eggert lagði í hringferðina til styrktar Hjartaheillum og samkvæmt nýjustu tölum hafa safnast á bilinu 6-7 milljónir króna. Morguninn hefur verið góður hjá Eggerti en hann hefur barist við mótvind og rigningu frá því hann lagði af stað. Það var gott hljóðið í honum rétt fyrir hádegið þar sem hann hjólaði með borgarstjóranum í Reykjavík, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur. Pétur og Auddi úr Strákunum á Stöð 2 eru líka mættir til að hjóla með Eggerti síðasta spölinn. Eggert sló nýtt persónulegt met í gær þegar hann hjólaði 145 kílómetra. Eggert segir að hann sé víða aumur í líkamanum, þó ekkert sem hann vilji kvarta yfir. „Aðeins í höndunum, svolítið í bakinu og smá í fótunum - en fínn að öðru leyti,“ segir Eggert. Þeir sem vilja hjóla með Eggerti síðasta spölinn geta hitt hann við Hlégarð í Mosfellsbæ klukkan 17.30. Þaðan verður svo hjólað upp á Stöð 2 á Lynghálsi.   





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.