Innlent

Icelandair ógildir greidda farmiða

Icelandair ógildir farmiða þeirra farþega sem kaupa miða með félaginu og hafa ekki nýtt fyrri helming farseðilsins. Þannig hefur farþegi sem kaupir sér far fram og til baka til einhvers áfangastaðar félagsins og nýtir ekki fyrri ferðina, glatað rétti sínum til að nýta sér seinni hluta farmiðans enda þótt viðkomandi eigi bókað sæti. Þar sem dýrara er að kaupa miða aðra leið en báðar hafa margir freistast til að kaupa miða báða leiðir og sleppa öðru fluginu. Það gengur upp ef seinna fluginu er sleppt en ef fyrra fluginu er miði fólks í seinni flugið ógiltur. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að uppbygging fargjalda Icelandair sé þannig að félagið bjóði flug fram og til baka en ekki stakar leiðir. "Sá sem kaupir ferð fram og til baka en mætir ekki þegar ferðin hefst, hefur í raun afþakkað þá þjónustu sem hann var að kaupa. Þegar farþegi mætir ekki í flug, fellur miðinn úr gildi og frátekna sætið á bakaleiðinni opnast þá í tölvukerfunum til sölu á ný," segir Guðjón. Hann segir að fólk geti hins vegar breytt miðum sínum fyrir fram og hvetur fólk til að breyta í tæka tíð. "Við bjóðum auðvitað fargjöld aðra leiðina fyrir þá sem það kjósa en þau eru hlutfallslega dýrari og mun færri kaupa þau. Þetta fyrirkomulag byggir á reynslu til margra áratuga en fólk vill yfirleitt nýta sér það hagræði að kaupa ferð fram og til baka í sama vetvangi." Birgir Jónsson, forstjóri Iceland Express, segir að farþegar félagsins byggi sína ferðabókanir upp á annan hátt en Icelandair. "Við horfum á þetta aðskilið. Þú breytir miðanum alveg að vild hvort sem er að ræða áfangastað, nafni farþega og dagsetningu allt að þremur klukkustundum fyrir brottfarartíma. Okkar kerfi byggist á því að farþegar kaupa sína miða hvora leið fyrir sig," segir Birgir. Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, segist ekki vilja tjá sig um efnisatriði einstakra mála fyrr en hann hafi kynnt sér báðar hliðar málsins en hvetur fólk sem telur sig misrétt beitt að hafa samband.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×