Innlent

Fleiri vilja skrá sig í sumarhús

Skipulagsnefnd sveitarfélaga í uppsveitum Árnessýslu hefur lagt til að ekki verði veitt leyfi til lögheimilis í frístundarbyggð nema að umsækjandi færi fram sannanir fyrir fastri búsetu sinni og skuli það gert með lögregluskýrslu þar sem umsækjandi færir einnig rök fyrir því að hann vilji búa í frístundarbyggð. Standi húsið inni á frístundasvæði verði umsækjandi að sækja um að aðalskipulagi fyrir lóðina sem heimilið er á verði breytt. Sveitarstjórn í Grímsnes- og Grafningshreppi hefur skrifað undir þessi tilmæli enda hafa sveitarfélaginu þegar borist umsóknir um lögheimili í frístundarbyggð þar síðan dómur féll í Hæstarétti í maí síðastliðnum sem heimilar að menn hafi lögheimili sitt í sumarbústað sé hann íbúaðarhæfur allan ársins hring. "Við eru alls ekki á móti því að fá fólk í sveitarfélagið en við vinnum eftir skipulags- og byggingarlögum og það eru fjölmargir sumarhúsaeigendur ósáttir við íbúabyggð í frístundabyggð," segir Margrét Sigurðardóttir sveitarstjóri. Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri í Hrunamannahreppi segir að þar hafi menn ekki farið varhluta af áhuga fólks á að flytja lögheimili sitt þangað. Hann segir að sveitarfélagið sé ekki í stakk búið til að veita íbúum þá þjónustu sem því ber skylda til ef íbúum með lögheimili þar fjölgi. Hann segir að sveitarstjórnin sé að ræða það hvernig bregðast megi við þessari eftirspurn. Trausti Fannar Valsson, lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem einnig á sæti í starfshópi á vegum félagsmálaráðuneytisins sem ræðir áhrif dómsins á þjónustuhlutverk sveitarfélaga, segir að eins og sakir standa hafi sveitarfélögin ekki heimild til þess að setja skilyrði fyrir lögheimilisveitingu. Hann bendir hins vegar á að dómurinn gangi gegn ákveðnu forræði sem sveitarfélögin hafa samkvæmt skipulags- og byggingarlögum til að skipuleggja byggð. Samkvæmt þeim lögum getur sveitarfélag ákveðið að á einum stað eigi að vera sumarhúsabyggð sem ekki verði nýtt til fastrar búsetu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×