Ekki dregur úr flugi til Lundúna

Hryðjuverkin í Lundúnum á fimmtudag, þar sem að minnsta kosti 52 biðu bana og fjöldi særðist, hafa lítt eða ekki dregið úr áhuga fólks á að ferðast til borgarinnar. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir engar breytingar hafa orðið á ferðatilhögun fólks og raunar sé áhuginn á borginni meiri nú en á sama tíma í fyrra. Svipað er uppi á teningnum hjá Iceland Express en Birgir Jónsson framkvæmdastjóri segir einstaka farþega hafa seinkað för sinni um nokkra daga eða vikur. Minna sé þó um slíkt en hann hafi búist við.