Innlent

Loftbrú frá Íslandi í sextíu ár

Hinn 11. júlí 1945 kl. 7.29 lagði Catalina-flugbátur Flugfélags Íslands af stað frá Skerjafirði til Largs Bay nærri Glasgow. Fjórir farþegar voru um borð, þrír Íslendingar og einn Skoti og stýrði Jóhannes Snorrason vélinni í þessu fyrsta áætlunarflugi íslensks flugfélags til útlanda. 12. júlí 2005 kl. 7.29 hélt Boeing 757 þota Icelandair til Glasgow með ríflega 150 farþega innanborðs og var Páll Stefánsson flugstjóri í þeirri ferð. Farþegunum voru gefnar gjafir í tilefni dagsins og haldin var móttaka á flugvellinum í gær í blíðskaparveðri. Móttakan náði hápunkti sínum þegar Boeing-þotan staðnæmdist á flugbrautinni rétt hjá gamla "þristinum" en sú vél var einmitt sú fyrsta sem Páll flaug á sínum atvinnuflugmannsferli. Þótt Páli þyki vænt um nafna sinn Sveinsson þá segir hann ólíkt þægilegra að fljúga þotunum. "Við erum um það bil fjórum sinnum fljótari í ferðum nú heldur en þá og fljúgum yfirleitt ofar skýjum í stað þess að skakast í skýjum og ókyrrð, inn á milli fjalla og fjarða." Sturla Böðvarsson samgönguráðherra var glaður í bragði í góða veðrinu í Glasgow. "Þetta er mjög skemmtilegur dagur og gaman að því að Icelandair og breska flugmálastjórnin standi fyrir þessari hátíðarsamkomu." Sturla segir þýðingu dagsins fyrst og fremst sögulega en hann veki okkur jafnframt til umhugsunar hversu mikilvægar flugsamgöngur eru fyrir Ísland. "Allt hefur gjörbreyst í okkar samskiptum við aðrar þjóðir eftir að við fórum að fljúga. Þessi sextíu ár hafa verið hreinn ævintýratími fyrir okkur, bæði hefur ferðamönnum fjölgað ár frá ári og jafnframt hafa öll viðskipti orðið eins og við þekkjum í dag, við erum í fremstu víglínu, þökk sé fluginu." Á meðal þeirra sem boðið var til móttökunnar á flugvellinum í Glasgow í gær var Magnús Magnússon, þáttagerðarmaður og rithöfundur, og fjölskylda hans. Í ávarpi sínu á flugvellinum í gær vék Jón Karl Helgason, framkvæmdastjóri Icelandair, að þætti Magnúsar í að kynna land og þjóð og taldi hann að sennilega hefðu fleiri ferðamenn komið til landsins fyrir hans atbeina en Icelandair. "Þetta er fallega sagt en þetta er ekki rétt, Björk hefur gert miklu meira," sagði Magnús, hógvær á svip þegar ummælin voru borin undir hann. Magnús er með ýmis verkefni í gangi, "alltaf að fikta," eins og hann segir sjálfur, og hann býst við að koma til Íslands næsta sumar til að sanka að sér efni. DC-3 vélin Páll Sveinsson hélt til Danmerkur fljótlega að móttökunni lokinni en á föstudaginn verður svo haldið heim á ný. Fríður hópur flugmanna hefur skipst á að fljúga þristinum síðustu daga og segir Tómas Dagur Helgason, sá eini í hópnum sem bæði flaug vélinni út og flýgur henni aftur heim, að sá tími sé "búinn að vera alveg frábær. Við höfum slegist um að fljúga vélinni".



Fleiri fréttir

Sjá meira


×