Innlent

Ekki hægt að lofa betra veðri

Veðrið hefur ekki staðið undir væntingum margra þetta sumarið og byrjar júlí, sem jafnan er hlýjasti mánuður ársins, ekki vel sunnan- og vestanlands. Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur segir engu hægt að lofa um betra veður.  Veðrið er gott á Austurlandi en það sama er ekki hægt að segja um sunnan- og vestanvert landið þar sem síðustu vikurnar hefur verið votviðrasamt og fremur kalt. Sigurður segir horfurnar næstu daga, fyrir þá sem farnir eru að þrá að fara í útilegu í sumarsælu, ekkert alltof góðar, sérstaklega þegar horft sé til helgarinnar. Þó líti út fyrir að eftir hádegi á morgun og á fimmtudag verði ágætt veður á höfuðborgarsvæðinu en þykkni svo aftur upp með vætu á nýjan leik. Það verði þá þriðja helgin í röð þar sem borgarbúar þurfi að sækja ansi langt til að komast í sólina.  Sigurður segist vera bjartsýnn á að veðrið ætti að geta verið orðið ágætt þegar Verslunarmannahelgin gengur í garð en segist þó ekki hafa mikið annað fyrir sér í því en vonina. Þegar litið er á spákort framtíðarinnar segir hann veðrið þá varla verða verra miðað við árstíma en það er nú.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×