Lífið

Minnisvarði um meinta galdramenn

Minnisvarði um þrjá meinta galdramenn sem brenndir voru á báli í Árneshreppi um miðja sautjándu öld var afhjúpaður um helgina. Alls voru 23 menn brenndir fyrir galdra á Íslandi en þetta er fyrsti minnisvarðinn um fórnarlömb galdrafársins sem reistur er. Árið 1654 gerðust þau ósköp í Trékyllisvík að við messu tók að líða yfir ungar óspjallaðar meyjar, þær froðufelldu og varð að bera þær hið skjótasta út undir bert loft, jafnvel tíu tólf meyjar í hverri messu. Þótti sýnt að hér væri göldrum um að kenna og eftir rannsókn málsins voru þeir Þórður Guðbrandsson, Egill Bjarnason og Grímur Jónsson taldir vera sökudólgarnir. Þeir voru dæmdir til dauða og brenndir á báli í Kistuvogi. Að vísu breyttist ekkert eftir það, áfram leið yfir ungmeyjarnar og er nú talið að loftleysi í kirkjunni hafi verið um að kenna. Um helgina var afhjúpaður minnisvarði um þá Þórð, Egil og Grím. Minnisvarðinn er steindrangur sem fenginn er af svæðinu og á hann er festur skjöldur með myndefni tengdu aftökunni. Fjölmenni var viðstatt en þetta er fyrsti og eini minnisvarðinn sem reistur hefur verið til minningar um fórnarlömb galdrafársins á Íslandi. Alls voru tuttugu og þrír menn brenndir á báli fyrir galdra. Minnisvarðinn var reistur að frumkvæði Valgeirs Benediktssonar sem á og rekur Minja-og handverkshúsið Kört í Trékyllisvík.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.