Innlent

Veiði mun betri en í fyrra

Það er rífandi gangur í laxveiðinni og víða er veiði mun betri en í fyrra. Veiðin í Norðurá er nærri helmingi meiri en á sama tíma í fyrra og Laxá í Kjós er að taka við sér eftir slaka byrjun. Veiðin í ám í Borgarfirði og í nágrenni höfuðborgarsvæðisins hefur verið mjög góð upp á síðkastið og fer vaxandi eftir heldur rólega byrjun víðast hvar. Í Norðurá er mokveiði og þar hafa veiðst meira en þrettán hundruð laxar, sem slagar hátt upp í veiði alls síðasta sumars þegar um það bil fimmtán hundruð laxar voru dregnir á land. Páll Ármann hjá Stangveiðifélagi Reykjavíkur segir þróunina almennt vera á uppleið eftir frekar rólega byrjun. Besta dæmið um þetta sé Laxá í Kjós sem sé öll að taka við sér eftir miklu slakari byrjun en í fyrra. Þar hafa nú veiðst um 250 laxar en í fyrra veiddust um fimmtánhundruð laxar allt sumarið. Hún er fullbókuð fram í september og því líklegt að veiðin í ár muni að lokum slaga hátt í endanlegar tölur síðasta árs. Í Elliðaáunum er veiðin það sem af er sumri svipuð og á sama tíma í fyrra en þar hafa um 230 laxar komið á land. Sömu sögu er að segja af Hítará, þar sem hundrað laxar hafa veiðst, og Gljúfurá þar sem einbeittir veiðimenn hafa halað inn um fimmtíu löxum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×