Innlent

Þarfnast brýnnar endurskoðunar

Neyðarskipulag almannavarna þarfnast brýnnar endurskipulagningar. Liðin eru þrettán til fimmtán ár síðan skipulagið var síðast endurskoðað en upphaflega var gengið út frá því að endurskoðun færi fram á fimm ára fresti að sögn Björns Halldórssonar, deildarstjóra almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra. "Þetta hefur dregist úr hömlu," segir Björn og bætir við að gert hafi verið ráð fyrir því að endurskoðun neyðarskipulaganna færi fram á þessu ári. "Það er ennþá á stefnuskránni en við erum önnum kafin," segir Björn. "Vonandi náum við þó að byrja vinnuna á þessu ári." Björn segir að laga þurfi stjórnunarkafla neyðarskipulaga að nýju verkþáttaskipulagi. "Núverandi neyðaráætlanir eru að stofni til frá árinu 1991 með minniháttar síðari tíma breytingum. Þær þarf að laga að ríkjandi hugmyndum um aðgerða- og vettvangsstjórnir auk þess sem samþætta þarf stigskiptingu neyðaráætlana," segir Björn en breytingarnar lúta fyrst og fremst að því hverjir fara með stjórn neyðaraðgerða í héraði. Björn segir að þrátt fyrir að endurskipulagningin hafi dregist á langinn sé ekki ástæða til þess að hafa verulegar áhyggjur. "Menn eru vanir bæði að æfa saman og vinna saman auk þess sem þeir þekkja nýja verkþáttaskipulagið til hlítar," segir Björn. "Það breytir því þó ekki að það á að uppfæra skipulagið." Björn telur vinnu við nýtt skipulag taka um þrjá mánuði og verður það gert í samstarfi almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra og almannavarnanefnda í héraði. Reynt verði að sinna endurskoðun skipulagsins samhliða öðrum verkefnum deildarinnar. Ekki sé um verulegan kostnað að ræða. "Til þess að vinna að þessu þarf fólk sem gjörþekkir neyðarskipulög og vinnu í neyðaraðgerðum," segir Björn Halldórsson. "Málum er síður en svo þannig háttað að ekki sé verið að endurskipuleggja öll viðbrögð við þeirri vá sem að kynni að steðja," segir Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Björn segir að á þeim árum sem um ræðir hafi skipulega verið unnið að aðgerðum vegna snjóflóðavarna, eldgosa auk þess sem unnið hafi verið að viðbrögðum við aðsteðjandi hættu á höfuðborgarsvæðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×