Innlent

Langir biðlistar í sólina

Vætutíð undanfarinna vikna hefur sett strik í reikning fjölmargra landsmanna sem hugðust verja sumarleyfinu á Íslandi. Ferðaskrifstofurnar hafa vart undan við að taka við óskum fólks um að komast til sólarlanda og er álag á símkerfum mikið og biðraðir myndast í afgreiðslusölum. "Það eru langir biðlistar í sólina," segir Tómas J. Gestsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Heimsferða sem man ekki aðra eins ásókn í sólarlandaferðir. "Það hefur rignt frá 20. júní með smá hléum og ásóknin í sólarlandaferðirnar hefur stigvaxið á þeim tíma." Uppbókað er í flestar ferðir hjá Heimsferðum fram yfir verslunarmannahelgi en þó mögulegt að finna smugur hér og þar, að sögn Tómasar. Hjá Plúsferðum er sama uppi á teningnum og segir Laufey Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri að þar á bæ sé allt uppselt. "Við höfum þegar fjölgað flugsætum og gistimöguleikum en allt selst eins og skot og biðlistarnir eru langir." Fólk hefur heimsótt fyrirtækið, nánast með grátstafina í kverkunum, og sagst ekki þola lengur við í rigningunni. "Landsmenn virðast hafa hugsað sér að góða veðrið sem var í fyrra kæmi aftur en það er segin saga að ef fólk vill komast til sólarlanda á ákveðnum tíma þarf að bóka ferðina með góðum fyrirvara. Helgi Jóhannsson hjá Sumarferðum segir ásóknina í sólina vera gríðarlega. "Fólk kemur eða hringir og vill komast út á morgun," segir hann. En eins og annars staðar er erfitt um vik, því uppselt er í flestar ferðir. "Við höfum þjappað í troðfullar vélar og reynt að útvega einhverja viðbótargistingu og tekist að bjarga einhverjum." Helgi veit dæmi þess að fólk hafi frestað sumarleyfinu sínu; hreinlega snúið til vinnu eftir nokkra daga í rigningunni og bíði þess að komast utan. "Menn eru uppgefnir. Hafa kannski verið á akstri í rigningu í fjóra daga og segja að þetta gangi ekki lengur." Og vinagreiðar eru hermdir upp á Helga. "Vinir og vandamenn hringa og segja að ég verði að bjarga málunum og trúa mér rétt tæplega þegar ég segi allt fullt. En svona er staðan.".



Fleiri fréttir

Sjá meira


×