Innlent

Ósætti um sameiningu

Fjölskylduráð Hafnarfjarðar mótmælir nýrri reglugerð sem Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra hefur undirritað, en hún miðar að sameiningu heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Guðmundur Rúnar Árnason, bæjarfulltrúi og formaður fjölskylduráðsins, segir að bæjarstjórnin öll sé einhuga í andstöðu sinni við þessi áform."Heilbrigðisráðherra hefur ekkert talað við okkur. Hann hefur sjálfur sagst stefna að því að sveitarfélögin taki við heilsugæslunni. Ríkisstjórnin fylgir einnig þeirri stefnu. Við óskuðum eftir að fá að taka við þessum málaflokki til reynslu líkt og gert hefur verið með þjónustusamningum á Hornafirði og á Akureyri. Því var hafnað snarlega," segir Guðmundur. Reglugerðin, sem heilbrigðisráðherra hefur undirritað, tekur gildi um næstu áramót. "Áður en reglugerðin var undirrituð átti ég fundi með starfsfólki og fulltrúum heilsugæslustöðvanna í Garðabæ og Hafnarfirði og skýrði út hvað við hefðum í huga," segir Jón Kristjánsson. "Þetta mun ekki hafa í för með sér neina skerðingu á þjónustu nema síður sé, því ráðgert er að opna nýja heilsugæslustöð í Hafnarfirði á þessu ári. Það verður auðveldara að taka á ýmsum sameiginlegum málum en það er ekki ætlunin að leggja niður neina þjónustu sem veitt er," segir Jón. Guðmundur Rúnar Árnason segir að heilsugæslan sé dæmigerð nærþjónusta þar sem taka ætti ákvarðanir sem næst þeim sem eiga að njóta hennar. "Það er augljóslega verið að færa ákvarðanatökuna fjær íbúunum. Ætli menn svo að færa heilsugæsluna til sveitarfélaganna, eins og stefnt er að, er augljóst að hér er verið að stíga skref í þveröfuga átt og gera málin erfiðari viðfangs en nauðsynlegt er," segir Guðmundur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×