Innlent

Niðurskurður hjá RÚV

Um síðustu mánaðamót var ákveðið að skera niður kostnað hjá Ríkisútvarpinu til að ná jafnvægi í rekstri stofnunarinnar á árinu. Um er að ræða flatan tveggja prósenta niðurskurð sem leggst jafnt á bæði útvarp og sjónvarp og á að spara fimmtíu milljónir króna. Búist er við að framleiðslu einhverra þátta í bæði útvarpi og sjónvarpi verði hætt. Á Rás eitt er mjög sennilegt að Auðlindin verði slegin af og líklegt er að fréttaskýringarþátturinn Í brennidepli detti upp fyrir í sjónvarpinu. Þá er búist við að nokkrir tónlistarþættir á Rás tvö leggi upp laupana, einkum kvöldþættir. Engar endanlegar ákvarðanir hafa þó verið teknar. Þá má geta þess að ákveðið var að afnema þrettán þúsund króna líkamsræktarstyrki starfsmanna, en í fyrradag var sú ákvörðun dregin til baka vegna mótmæla starfsmanna. Nokkur óvissa hefur ríkt hjá starfsmönnum vegna þessa, en ekki er enn búið að kynna niðurskurðinn formlega fyrir þeim. "Auðvitað hafa menn áhyggjur af uppsögnum," segir Jóhanna Margrét Einarsdóttir, formaður starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins. "Hér er margt fólk með skammtímasamninga sem hægt er að láta renna út þannig að líklega kæmi ekki til uppsagna fastráðinna starfsmanna, en starfsmönnum gæti fækkað og vinnuálag á fastráðna starfsmenn gæti aukist í kjölfarið." Jóhanna segir starfsmenn einnig orðna langþreytta á hinu sífellda óvissuástandi. Guðmundur Gylfi Guðmundsson, framkvæmdastjóri fjármáladeildar Ríkisútvarpsins, staðfestir að ákveðið hafi verið að grípa til niðurskurðar í rekstrinum, en vill ekki tjá sig frekar um það í hverju niðurskurðurinn verður fólginn. "Það hefur orðið mikill kostnaðarauki á árinu," segir Guðmundur. "Við höfum ekki fengið svar við óskum um hækkun afnotagjalda og þá er ekki annað að gera en að fara í þessar aðgerðir."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×