Lífið

Útsending frá Live8 hafin

Fyrstu Live8 tónleikarnir hófust í Tókýó um klukkan fimm í nótt að íslenskum tíma og standa til klukkan eitt. Hinir níu tónleikarnir hefjast síðan hverjir af öðrum, eftir því sem líður á daginn.   Um tíu þúsund manns eru á Makuhari Messe leikvanginum í Tókýó að fylgjast með Björk Guðmundsdóttur, strákabandinu McFly og bandarísku sveitinni Good Charlotte meðal annarra en farið er að styttast í annan endann á dagskránni sem lýkur klukkan eitt. Jóhannesarborg í Suður-Afríku var önnur í röðinni, þar hófust tónleikarnir klukkan korter fyrir ellefu í morgun og standa fram eftir degi. Tónleikarnir í London, París, Berlín og Róm byrjuðu ýmist klukkan tólf eða eitt en útsending á sjónvarpsstöðinni Sirkusi hófst á hádegi. Þar verður sýnt beint frá Live8 tónleikum um víða veröld auk þess sem völdum atriðum sem lokið er verður skotið inn í dagskrána. Atriði Bjarkar Guðmundsdóttur í Tókýó verður þar á meðal. Áhorfendur voru farnir að streyma á tónleikastaðina í Evrópu snemma í morgun en búist er við hundruðum þúsunda áhorfenda. Samtals verða tónleikarnir tíu í fjórum heimsálfum, allt frá Tókýó í austri til Toronto í vestri. Þúsundir mótmælenda eru einnig saman komnar í Edinborg í Skotlandi en þar verður marserað í gegnum borgina undir yfirskriftinni „Látum fátækt heyra sögunni til“. Skipuleggjendur vonast til að hundrað þúsund manns taki þátt í mótmælagöngunni og myndi saman risastórt, hvítt band en það er tákn Live8 framtaksins. Leiðtogar átta stærstu iðnríkja heims koma saman til fundar í Edinborg í næstu viku og er markmiðið að þrýsta á þá um að auka þróunaraðstoð og fella niður skuldir fátækustu ríkja heims. Og íslensku tónleikarnir „ÁttaLíf“, sem haldnir voru í Hljómskálagarðinum í gærkvöldi, heppnuðust vel. Þar léku tíu íslenskar hljómsveitir fyrir troðfullan Hljómskálagarð af fólki til að lýsa yfir stuðningi við málstað Live8.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.