Innlent

Ofvitinn og Druslan í Skorradal

Ekki er ólíklegt að Ofvitinn og Druslan verði á Indriðastöðum í Skorradal um helgina, eina stærstu ferðahelgi ársins, en þangað stefnir Félag húsbílaeigenda í kvöld. Fréttamaður Stöðvar 2 kynnti sér ferðir þessara tveggja ásamt fjölda annarra húsbíla sem bera álíka skemmtileg nöfn en alls eru húsbílaeigendur hér á landi orðnir 800 talsins. Félagið húsbílaeigenda var stofnað árið 1983 og voru þá tíu manns skráðir. Óhætt er að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan þá en vel á áttunda hundrað manns eru í félaginu í dag og hefur fjölgað um 60% á síðustu fimm árum. Ásgerður Magnúsdóttir, formaður félagsins, segir að meðaltali tíu manns skrá sig í viku hverri í félagið, enda ferðamátinn skemmtilegur sem og félagsskapurinn sem myndast hefur í kringum félagið. Búið er að skipuleggja tíu ferðir í sumar og segir formaðurinn alla bílana fá nöfn rétt eins og sumarhúsin. Nöfnin eru jafn misjöfn og þau eru mörg en meðal nafna má nefna Vininn, Þvottavélina, Mjása, Drusluna, Rúsínuna, Afa, Ofvitann, Kermit, Beethoven og Hótel Doddalund. Ásgerður segir fólk taka sér góðan tíma áður en nafn bílsins er valið. Sjálf er hún að gera upp gamlan húsbíl og þó svo verkið hafi gengið vel hefur gengið brösuglega að finna nafn. Eiginmaður hennar vill láta hann heita Húgó eins og hund þeirra hjóna en hún kveðst ekki kunna við að „fara inn í“ Húgó. Nafnið má bíða segir Ásgerður en ferðalögin þó ekki og ætlar félagið að halda á Indriðastaði í kvöld. Þó ekki allir átta hundruð meðlimirnir enda erfitt að finna stað fyrir svo stóra samkomu. Nýir húsbílar kosta á bilinu fjórar til átta milljónir króna og hefur salan stóraukist síðustu árin. Ásgerður hvetur alla til að prófa þennan máta ferðalaga - auðveldari og skemmtilegri ferðamáta sé ekki að finna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×