Lífið

Undirbúningur fyrir Live8 á fullu

Undirbúningur fyrir Live8-tónleikana tíu er nú á fullu um allan heim. Líka í Hljómskálagarðinum í Reykjavík. Tónleikarnir tíu verða í London, París, Róm, Berlín, Moskvu, Jóhannesarborg, Tókýó, Fíladelfíu, Toronto og Eden í suðvestur Englandi en það eru al-afrískir tónleikar. Svona stórviðburðir krefjast auðvitað gríðarlegs undirbúnings. Í London verða þeir í Hyde Park og þar hafa menn mestar áhyggjur af veðrinu. Og svo auðvitað því að allt gangi eins og það á að gera. Harvey Goldsmith, umsjónarmaður Live8 í London, segir þetta stærsta tónlistarviðburð allra tíma. Honum verður sjónvarpað í 164 löndum og þúsund útvarpsstöðvar útvarpa frá þeim. Því er spáð að um 85% mannkyns muni hafa möguleika á að sjá eða heyra útsendingu frá tónleikunum. Jafnvel stærstu stjörnur fá aðeins í magann yfir því. Fran Haley, söngvari Travis, segir að listamennirnir hafi spilað á mörgum stórtónleikum en hann telur að allir, þ.á m. Paul McCartney og U2, séu dolfallnir því enginn hafi áður tekið þátt í slíkum stórviðburði. Í Róm verða tónleikarnir á hinum fræga, rómverska leikvangi, Circo Massimo, en þar er pláss fyrir 250.000 áhorfendur. Starfsmenn Matvælahjálpar Sameinuðu þjóðanna eru auðvitað ánægðir með athyglina sem þeirra starfsvettvangur fær með tónleikunum. Brenda Barton hjá samtökunum segir að tónleikarnir eigi sér stað á mikilvægum tímapunkti því eftir viku hittist leiðtogar G8-ríkjanna. „Fátækt verður ekki útrýmt án pólitískra aðgerða og pólitísks vilja,“ segir Barton. Tónleikarnir hefjast klukkan þrjú í nótt að íslenskum tíma og það er Tókýó sem ríður á vaðið. Þar er Björk Guðmundsdóttir ein af helstu stjörnunum sem fram koma. En það verða líka tónleikar í Reykjavík, undir yfirskriftinni „Átta líf“. Þar troða upp tíu íslenskar hljómsveitir, þeirra á meðal Hjálmar, Papar, Mínus og Stuðmenn. Ekki var allt komið á sinn stað nú síðdegis en Árni Snævarr, einn skipuleggjandanna, sagði að allt myndi verða tilbúið í kvöld, enda vaskir menn að störfum. Honum fannst þó verst að rigningin léti ekki sjá sig því fjárfest hafi verið í tjaldi til varnar henni eftir að veðurfréttamaður Stöðvar 2 hafi spáð 70% líkum á úrkomu í Reykjavík í kvöld. Árni bjóst þó ekki við að höfða mál. Tónleikarnir í Hljómskálagarðinum hófust klukkan hálfníu í kvöld og útsending frá Live8 hefst á Sirkus á hádegi á morgun.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.