Innlent

Fá 60 milljarða fyrir orkusölu

Fulltrúar Alcan á Íslandi og Orkuveitu Reykjavíkur hafa skrifað undir samkomulag um að Alcan kaupi af Orkuveitunni 200 MW af raforku vegna hugsanlegrar stækkunar álversins í Straumsvík. Gert er ráð fyrir því að orkan geti verið til afhendingar seinni hluta árs 2010 og að tekjur Orkuveitunnar verði um 60 milljarðar króna á samningstímanum. Áætlað er, að gengið verði frá endanlegum samningi síðar á þessu ári. Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformaður Orkuveitunnar, segir samninginn hagstæðan fyrir fyrirtækið og borgarbúa alla. Raforkan verður útveguð með aukinni nýtingu á jarðvarma á Hengilssvæðinu og með virkjun á Hellisheiði. "Þessir samningar styrkja mjög atvinnulífið hér á höfuðborgarsvæðinu, bæði á meðan á framkvæmdum stendur og eins þegar álverið er komið í fulla stærð. Talið er að þegar stækkun sé lokið skapist 500 ný störf við álverið með margfeldisáhrifum þannig að við erum að tala um 1500 ný störf í allt," segir Alfreð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×