Lífið

Þiggjendur vita ekki af Live8

Fæstir þeirra sem Live8 tónleikarnir eiga að hjálpa, hafa hugmynd um framtakið. Þeir Afríkumenn sem vita af því segja það svo sem ágætt, en það þurfi meira til. Youssou N'Dour er einn frægasti tónlistarmaður Afríku. Hann hefur meira að segja spilað í Laugardalshöllinnni. N'Dour er helsti fulltrúi Afríku í Live8 og hann segir það afar mikilvægt að Afríkumenn taki líka þátt í tónleikunum. Að þetta sé ekki bara vestrænt „show“. Fyrir þær milljónir manna í Afríku sem lifa á innan við dollar á dag og þurfa að hugsa um það allan daginn bara að hafa í sig og á, eru glamúrpopptónleikar einhvers staðar úti í heimi utan við allt sem þeim finnst koma sér við. Í viðtali Reuters-fréttastofunnar við Ousmane Kane, landafræðistúdent við háskólann í Dakar kemur fram að hann hefur aldrei heyrt um Bob Geldof, Live8, né Bono. Skilaboð hans til tónlistarmannanna eru samt einföld: „Syngið um eitthvað sem skiptir máli í daglegu lífi okkar, ekki bara ástarsöngva.“ Flestir viðmælendur eru sammála um að það sé ekkert slæmt við að halda tónleika vítt og breitt um heiminn til að þrýsta á um aukna aðstoð til Afríku. Þeir eru einnig sammála um að það sé ekki nóg. Afríka þurfi á langtímaskuldbindingum að halda, það dugi ekki að kveikja ljósið einstaka sinnum og athuga hvernig staðan er, sjá að hún er hörmuleg og slökkva aftur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.