Innlent

Umferðaröryggi eykst með göngum

Umferðaröryggi á Suðausturlandi jókst til muna í dag þegar göng undir Almannaskarð voru opnuð. Verkið kostaði minna en gert var ráð fyrir og lauk rúmum þremur mánuðum á undan áætlun. Það var Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sem opnaði göngin formlega upp úr klukkan tvö í dag. Hornfirðingar fjölmenntu í tilefni dagsins og talsverð röð bíla hafði safnast saman til að komast í gegnum göngin. Karlakór Hornfirðinga tók nokkur lög í tilefni dagsins og veðrið lék við þá sem voru saman komnir við Almannaskarð. Göngin eru alls rúmir 1300 metrar að lengd og nýir vegir beggja vegna alls um 5,5 kílómetrar. Gamla leiðin lá um Almannaskarð sem var einn brattasti hluti hringvegarins. Göngin sem leysa hana af hólmi stytta hringveginn ekki mikið en auka öryggi til muna. Sturla Böðvarsson segir að Almannaskarðið hafi verið hættulegur kafli á hringveginum og þess vegna hafi verið tekin ákvörðun um að grafa göngin. Þau stórauka umferðaröryggi á svæðinu. Margir muna þegar Sturla Böðvarsson sprengdi síðasta haftið í Almannaskarðsgöngum. Staðreyndin er sú að framkvæmdin hefur gengið mjög vel fyrir sig í aðalatriðum. Kostnaður er undir áætlun og verkinu lauk rúmum þremur mánuðum fyrr en til stóð. Heildarkostnaður við göngin er rösklega milljarður króna sem er nokkuð minna en gert var ráð fyrir. Samgönguráðherra leiðist ekki hversu vel verkið hefur gengið. Hann segir að það sé skemmtilegt þegar svo vel takist til og göngin séu mjög glæsilegt mannvirki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×