Innlent

Eitt tjald við Kárahnjúka

Tveir einstaklingar í einu tjaldi mynda nú mótmælendabúðirnar sem andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar eru að koma þar upp. Fimm til viðbótar bætast við fyrir nóttina. Skipuleggjendur hugðust koma upp búðunum fyrir sumarsólstöður í fyrradag en í dag var þar aðeins eitt lítið tjald, við Sauðá, um þrjá kílómetra frá Kárahnjúkastíflu. Ekkert sást til mannaferða við tjaldið en fréttaritari Stöðvar 2 fékk þær upplýsingar að þar inni væru tveir einstaklingar sofandi, karl og kona, enda hefðu þau komið á svæðið seint um nótt og tjaldað í morgun. Lögregla og þeir sem annast öryggismál á svæðinu fylgjast hins vegar með. Yrsa Sigurðardóttir, tæknistjóri eftirlits við Kárahnjúka, segir að þar á bæ séu menn viðbúnir að ræða við fólkið og biðja það að fara ef það komi inn á vinnusvæði. Að öðru leyti megi það vera við Kárahnjúka og mótmæla. Aðspurð af hverju hún hafi mestar áhyggjur segir Yrsa að það sé öryggi mótmælendanna. Á svæðinu séu opnar sprengingar og stórar og þungar vinnuvélar. Þetta sé því hættulegt svæði og ekki svæði sem almenningur eigi erindi inn á. Þegar fréttaritari Stöðvar 2 á Egilsstöðum, Sigurður Ingólfsson, var á heimleið af Kárahnjúkum í dag mætti hann fimm einstaklingum sem ætluðu einnig að tjalda. Helena Stefánsdóttir, ein þeirra, segir stefnt að fjölskyldutjaldbúðum og menningarviðburðum og útivist og gamani. Hún telji að mótmælendurnir muni hafa það mjög notalegt. Þau séu mjög vel búin. Aðspurð hversu lengi þau ætli að vera á staðnum segir Einar Þórhallsson, sem einnig var á leið að Kárahnjúkum, að það sé ekki alveg ákveðið. Fyrst verði þau í nokkra daga en komi svo aftur. Þetta fari allt eftir aðstæðum. Aðspurð segist Helena vona fólk fjölmenni og að það verði mikið fjör á staðnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×