Innlent

Skilti með leiðbeinandi hraða

Ný umferðarskilti, sem eiga að leiðbeina ökumönnum um að lækka hraðann á hættulegum köflum, verða sett upp á þjóðvegum landsins á næstu vikum. Tölvuútreikningar eru notaðir til að ákvarða hve mikinn hraða einstakir vegarkaflar þola. Nýju umferðarskiltin eru tilbúin en þau verða með fimm mismunandi hröðum: 30, 40, 50, 60 og 70 kílómetra. Með hraðamerkinu verður ætíð viðvörunarmerki sem segir hvers kyns hætta er framundan, oftast beygjumerki. Þetta eru ekki bannmerki um hámarkshraða heldur upplýsingamerki til að leiðbeina ökumönnum um hvaða hraði er skynsamlegur þegar varasamur kafli nálgast á þjóðveginum. Rögnvaldur Jónsson, framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni, segir allt vegakerfið vera til inni í tölvum út frá GPS-mælingum og búið sé að reikna út þá staði sem ekki þoli þann hámarkshraða sem sé leyfður á vegunum. Merkin verða einkum sett upp við beygjur og brekkur, helmingurinn fer upp í sumar en hinn helmingurinn á næsta ári. Samtímis hrindir Vátryggingafélag Íslands af stað, fimmta árið í röð, átaki til að draga úr umferðarslysum. Kynntar voru upplýsingar í dag um svarta bletti á þjóðvegum landsins þar sem verstu slysin verða. Þeir eru á hringveginum undir Hafnarfjalli, í Stafholtstungum, við Fornahvamm, Síká í Hrútafirði, við Geitaskarð í Langadal, við Kotá í Skagafirði og í útjaðri Akureyrar. Þéttast eru blettirnir á Suðurlandsvegi milli Hveragerðis og Reykjavíkur, í Kömbum, við Þrengslagatnamót, í Hveradalabrekku og í Lækjarbotnabrekku. Átakið var kynnt á Grensásdeild þar sem fram fer endurhæfing fórnarlamba umferðarslysa og voru nokkur þeirra viðstödd í dag til að miðla af reynslu sinni, þeirra á meðal Berent Karl Hafsteinsson sem missti annan fótinn í mótorhjólaslysi eftir ofsaakstur á Akranesi fyrir þrettán árum. Hann lenti í holu á rúmlega 200 km hraða, missti stjórn á hjólinu, hentist út í grjótgarð og hlaut nærri 50 beinbrot. Berent segir vinstri hendi sína í „buffi“, hann hafi brotið níu hryggjarliði og tvo hálsliði og því sé í raun kraftaverk að hann skuli vera á gangandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×