Innlent

Minna bil milli hvalveiðifylkinga

Lögð verður fram tillaga á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í dag um að hvalveiðum í atvinnuskyni verði stjórnað innan Alþjóðahvalveiðiráðsins. Fundurinn fer fram í Ulsan í Suður-Kóreu og hófst í gær en þá fóru fram nokkrar atkvæðagreiðslur um ýmis mál af stjórnsýslulegu tagi samtakanna og fundarins. Stefán Ásmundsson, formaður íslensku sendinefndarinnar á fundinum, segir að honum finnist sem að draga sé saman með fylkingum hvalveiðisinna og andstæðinga þeirra. "Það var ein atkvæðagreiðsla sem féll bara á einu atkvæði en það var svo sem ekki stórt mál. Langstærsta málið snýst um stjórnunarkerfið um atvinnuveiðar og það er það sem er verið að ræða í bakherbergjum hér á fundinum. Á þessari stundu er ekkert ljóst hvort að við náum því í gegn að stjórnkerfi hvalveiðanna verði komið á en við erum að reyna koma því máli í réttan farveg," segir hann. Þrjá fjórðu hluta atkvæða á fundinum þarf til að aflétta banninu sem hefur gilt í um tuttugu ár. Helstu stuðningsaðilar hvalveiða á fundinum eru auk Íslendinga, Japanir og Norðmenn sem eru eina þjóðin í heiminum sem stundar hvalveiðar í atvinnuskyni en Japanir og Íslendingar stunda þær í vísindalegum tilgangi. Ásta Einarsdóttir, varaformaður íslensku sendinefndarinnar, segir að henni finnist sem miðjuhópur sé að myndast í afstöðunni til hvalveiða þar sem Bandaríkin, Holland, Svíþjóð og Finnland séu meðal stærstu þjóðanna en auk þeirra hafa komið inn ný ríki sem styðja hvalveiðar. Nokkur þeirra höfðu þó ekki atkvæðisrétt á fundinum í gær þar sem þau höfðu ekki greitt gjöld til ráðsins. Þær þjóðir sem eru hvað hörðust í afstöðu sinni gegn hvalveiðum eru Ástralía og Nýja-Sjáland. Í tillögum Hafrannsóknarstofnunar fyrir árið í ár er gert ráð fyrir því að veiddar verði þrjátíu og níu hrefnur í vísindaskyni en þeim verði svo fjölgað í eitt hundrað árið 2006.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×