Innlent

Þjóðhátíð í skugga umferðarslysa

Þjóðhátíð var haldin í skugga umferðarslysa þetta árið. Tveir unglingspiltar biðu bana í slysi norður í landi á fimmtudagskvöld og félagi þeirra liggur sofandi í öndunarvél á sjúkrahúsi. Þá slasaðist maður alvarlega í bílveltu í Borgarfirði að kvöldi þjóðhátíðardagsins. Lögreglan hefur þurft að stöðva tugi ökumanna víða um land fyrir of hraðan akstur og fyrir að aka undir áhrifum áfengis. Aðalvarðstjóri á lögreglustöðinni í Reykjavík ítrekar fyrir fólki að aka ekki yfir hámarkshraða og mun lögreglan í Reykjavík og nágrenni taka á móti ferðalöngum með hertri gæslu umhverfis höfuðborgarsvæðið í dag. Alvarleg bílvelta varð í Öxnadal aðfaranótt föstudags þar sem tveir ungir menn létust. Tveir aðrir unglingspiltar voru í bílnum og liggur annar þeirra þungt haldinn á gjörgæslu og er haldið sofandi í öndunarvél á Landspítala-háskólasjúkrahúsi Hinn var útskrifaður af Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri í gær. Þá slasaðist maður mikið í bílveltu sem varð á miðnættti á föstudagskvöld við bæinn Varmalæk í Borgarfirði. Hann fór í aðgerð á laugardag og er líðan hans stöðug þar sem hann liggur á gjörgæslu á Landspítala-háskólasjúkrahúsi. Á Akureyri voru tuttugu ökumenn teknir fyrir of hraðan akstur á aðeins sjö klukkustunda tímabili. "Við höfum mikið þurft að sinna umferðarmálum," sagði lögreglukona sem var á vakt á Akureyri. Á Reykjanesbraut voru nokkrir ökumenn teknir fyrir ofsahraða. "Hér hefur verið mikið annríki," sagði lögreglumaður á Keflavíkurflugvelli. "Menn eru ekki að passa sig. Við höfum tekið þrjá fyrir ölvunarakstur og tólf fyrir of hraðan akstur síðan á föstudag," sagði hann um hádegisbil á laugardag. "Þetta er hörmulegt og mér finnst það umhugsunarefni að fólk virðist halda áfram að aka mjög hratt og óvarlega í kjölfar svona slysa. Ég skil ekki hvernig það getur viðgengist þegar menn hafa fengið svona skilaboð sem eru þyngri en tárum tekur að láta sér ekki segjast. Yfirleitt er þetta aðeins ímyndaður tímaskortur og menn eru bara að flýta sér til að flýta sér," segir Óli H. Þórðarson, formaður umferðarráðs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×